Síldarævintýrið á Siglufirði
Síldarævintýrið á Siglufirði hefur verið haldið um Verslunarmannahelgi árlega í tuttugu og tvö ár, eða allt frá árinu 1991 – og verður því tuttugasta og þriðja hátíðin haldin í ár. Hátíðin byggir á sögu staðarins, síldinni og því mikla ævintýri sem hér fór fram frá upphafi 20. aldar og fram til 1970.
Síldarævintýrið hefur skipað sér sess sem menningarleg fjölskylduhátíð – á ári hverju er lögð áhersla á að vinna sem mest með listamönnum úr heimabyggð og að setja saman sem fjölbreyttasta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Á Síldarævintýri er eitthvað fyrir alla, bæði börn og fullorðna. En auk heimamanna sjá landsþekktir skemmtikraftar og tónlistarmenn um að halda uppi fjöri og skemmta gestum hátíðarinnar. Aðrir menningarlegir viðburðir eru fjölmargir, svo sem síldarsöltun á Síldarminjasafninu, upplestur eða flutningur á íslenskum þjóðlögum í Þjóðlagasetrinu og á Ljóðasetrinu – að ógleymdri glæsilegri flugeldasýningu og bryggjusöng á sunnudagskvöldi.
Líkt og undanfarin þrjú ár hefst undanfari hátíðarinnar, Síldardagar, viku fyrr eða fimmtudaginn 24. júlí. Frá árinu 2010 hefur skapast sú hefð að setja saman dagskrá fyrir bæði Síldardaga og Síldarævintýri – en á Síldardögum er eitthvað svolítið um að vera á hverjum degi. Sem dæmi má nefna tónleika, íþróttaviðburði, heimsóknir á vinnustofur listafólks, sjóstangveiðimót, fjallgöngur o.s.frv.