Events

Events

Eldur í Húnaþingi

  • Eldur í Húnaþingi

Eldur í Húnaþingi er fjölskylduhátíð í Húnaþingi vestra sem haldin er dagana 23. – 27. Júlí þetta árið. Þetta er í 11. Skiptið sem hátíðin er haldin.

Hátíðin hefst á opnunarhátíð á miðvikudagskvöldinu.  Á hátíðinni er að finna eitthvað fyrir alla. Á meðal þess sem er í boði eru námskeið fyrir börn og unglinga, listasmiðja, listasýning, heimsmeistaramót í kleppara, bílabíó, kjötsúpa og hinir ýmsu tónlistarviðburðir.

Melló músíka er tónlistarviðburður þar sem heimamenn láta ljós sitt skína og strax á eftir því munu heyrast blúsaðir tónar frá Johnny and the rest.  Á meðan á Melló músíka stendur eru tónleikar fyrir unglingana.

Tónleikar í Borgarvirki hafa notið mikilla vinsælda á meðal gesta hátíðarinnar, en þangað er gott að hafa með sér teppi og jafnvel eitthvað mjúkt til að sitja á. Á eftir tónleikunum í Borgarvirki eru svo glæstir tónleikar í félagsheimilinu á Hvammstanga sem standa fram eftir nóttu.

Laugardagur hátíðarinnar er tileinkaður fjölskyldunni. Þar má finna hoppukastala fyrir börnin, bubblebolta, sápurennibraut, fyrirtækja-/liðakeppni, andlitsmálningu, paintball og ýmislegt fleira skemmtilegt. Að kvöldi laugardags er barna/unglingaball og lýkur svo hátíðinni með alvöru sveitaballi og meðfylgjandi stuði.

Útvarp Hvammstangi verður starfrækt á meðan á hátíðinni stendur.