Events

Events

Hamingjudagar á Hólmavík

Fyrstu Hamingjudagarnir á Hólmavík voru haldnir árið 2005 og hafa þeir verið árviss viðburður æ síðan, árið 2014 fara tíundu Hamingjudagarnir því fram. Hátíðin er átthagamót sem bíður upp á fjölbreytta viðburði fyrir alla fjölskylduna og er skipulögð með virkri þátttöku íbúa Strandabyggðar.

Árið 2011 var Hamingjusamþykkt Strandabyggðar samþykkt samhljóða af sveitarstjórn. Ekki er vitað til þess að önnur sveitarfélög í heiminum eigi í sínum ranni samþykktir sem fjalla sérstaklega um hamingjuna en hamingjan er eitt af leiðarljósum í uppbyggingu í Strandabyggð. Lífsgæði íbúa á Ströndum og upplifun gesta okkar skipta miklu máli og þau þarf að efla með fjölbreyttum ráðum. Í Strandabyggð ræktum við hamingjuna innra með okkur og stuðlum að aukinni gleði og lífsfyllingu hjá okkar nánustu, vinum og samferðamönnum, með orðum okkar og gjörðum.

Á Hamingjudögum árið 2014 verður að sjálfsögðu boðið upp á hið árlega Hamingjuhlaup, heimafólk býður upp á heimsins bestu Hnallþórur, boðið verður upp á innlit í heimahús og stofnanir og kassabílarallý. Hverfisteiti verða haldin, Hamingjutónar verða á sínum stað og Hamingjumarkaðurinn sömuleiðis auk þess sem boðið verður upp á fjölbreytta viðburði við allra hæfi.

Með virkri þátttöku í hátíðinni hjálpa menn og konur til við að uppfylla meginmarkmið hennar sem er að hver einasti íbúi í Strandabyggð ásamt gestum hátíðarinnar finni fyrir innri hamingju, hugarró, gleði og kærleika í hverju skrefi.

Verið öll hjartanlega velkomin á Hamingjudaga!