Events

Events

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri bjóða upp á þrenna tónleika og ókeypis skapandi tónlistarsmiðju fyrir börn. Fjölskylduhljómsveitin Spilmenn Ríkínís mun syngja íslensk þjóðlög í röddum og leika á gömul hljóðfæri, svo sem langspil. Kammerkórinn Hljómeyki, undir stjórn Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur, mun flytja íslenska kórtónlist og hið spænska Tríó Roncesvalles mun flytja tónlist allt frá miðaldasöngvum sefardískra gyðinga til frumflutnings á nýju verki eftir Þóru Marteinsdóttur. 5-12 ára börnum mun gefast tækifæri á því að taka þátt í ókeypis skapandi tónlistarsmiðju fyrir börn undir stjórn Skálmaldarmannsins Gunnars Ben. Þau munu fara í tónlistarleiki, spinna og syngja og taka að lokum þátt í lokatónleikum hátíðarinnar með atvinnutónlistarmönnum. Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri hafa verið haldnir árlega síðan árið 1991 og þar hafa vel á annað hundrað tónlistarmanna komið fram, íslenskra sem erlendra. Hátíðin gefur fólki kærkomið tækifæri til að njóta bæði tónlistar og náttúrufegurðar síðustu helgina í júní. Tónleikarnir fara fram föstudaginn 27. júní kl. 21:00, laugardaginn 28. júní kl. 17:00 og sunnudaginn 29. júní kl. 15:00.