Events

Events

Sjómannadagurinn á Patreksfirði

Sjómannadagurinn á Patreksfirði hefur verið haldin hátíðlegur frá árinu 1941 af Sjómannadagsráði Patreksfjarðar. Hátíðin stendur í 4 daga (29/5/14 til 1/6/2014), byrjar á fimmtudegi (uppstigningardag) og endar á sunnudegi. Lagt er upp með að það sé nóg um að vera fyrir börn og fjölskyldufólk.
Dagskráin í ár verður með aðeins breyttu sniði, þar sem prófað verður að hafa sem flesta    dagskrárliði niður á bryggju á meðan hátíðinni stendur. Þannig ætlum við okkur að skapa þéttari stemningu fyrir hátíðargesti þar sem afþreying og skemmtun verður á einum stað.

Af þeim skipulögðu dagskrárliðum ber að nefna að bænum er skipt í tvö lið Vatneyri og Geirseyri. Bærinn er skreyttur í tveimur litum rautt fyrir Vatneyri og blátt fyrir Geirseyri. Sú hefð hefur skapast að ákveðin hverfi bæjarins bjóða hátíðargestum uppá súpu í hádeginu á laugardeginum. Í ár  ætlar Átthagafélag Patreksfirðinga að sjá um hana, staðsetning auglýst nánar þegar nær dregur hátiðinni.

Fyrir börnin eru ýmsir viðburðir svo sem Skútuhlaupið, leikir á íþróttavelli, sigling um fjörðinn, hoppukastalar, leikhús, kassabílarallý og ýmsir aðrir leikir sem eru á bryggjunni á laugardegi og sunnudegi.

Aðrir helstu dagskrárliðir eru fótboltamótið Thorlacius Cup, kraftakeppni, róðrakeppni, markaðstorg, sigling um fjörðinn fagra, endurfundir fermingarárganga, gönguferðir með leiðsögn, skrúðganga, bryggjuball, golfmót. Stórbönd leika fyrir dansi á föstudags- og laugardagskvöldinu í FHP. (Skítamórall og Rokkabillýband Björgvins Halldórssonar, Siggu Beinteins og Palla Papa). Tónleikar með heimafólki, kaffihlaðborð og margt fleira fyrir utan alla þá viðburði sem eru utan dagskrár sjómannadagsráðs. Allir ættu að finna einhvað við sitt hæfi á þessari hátíð!

Á sjálfan sjómannadaginn er Sjómannamessa þar sem sjómenn sjá um söng og lestur. Einnig er fólk heiðrað fyrir óeigingjarnt starf í þágu sjómannastéttarinnar.