Events

Events

Smiðjuhátíð Tækniminjasafnsins

Tækniminjasafn Austurlands heldur sína ókeypis Smiðjuhátíð helgina fyrir Verslunarmannahelgi ár hvert.  Í ár verður hún 25. til 27. júlí.  Hátíðin er skemmtileg og fræðandi fjölskylduhátíð sem kostar ekkert inn á.  Í tilefni 30 ára afmælis safnsins á þessu ári verða sýningar, skemmtiatriði og námskeið mun fjölbreyttari en venja er.  Á safnasvæðinu verður hægt að skoða handverk og sjá handverksmenn vinna.  Auk sýningaratriða verða handverksnámskeið undir handleiðslu hæfileikaríkra leiðbeinenda í gangi og geta gestir m.a. fylgst með handverksmönnum steypa úr málmi, smíða í eldsmiðju, prenta í prentsmiðju safnsins, gera bækur, smíða úr tré og tálga.

Lifandi tónlist, sýningar og góður matur einkenna hátíðina. Aðgangur að tónleikum, dansleikjum á bryggjunni, sýningum og skemmtiatriðum er ókeypis, en námskeiða- og matarverð mjög stillt í hóf.  Gestum gefst tækifæri á að heimsækja Fjarskiptabílinn þar sem allt það nýjasta í fjarskiptum verður í boði og fylgjast með skeytasendingum og firðtali í elstu símstöð landsins og sjá þegar skeyti verða send með fyrsta þráðlausa útvarpssendi landsins.  FM stöðin “RadíóTower” verður starfrækt allan tímann og flutt þar frumsamin tónlist og annað útvarpsefni.  Fjölmargir lands- og heimsþekktir tónlistarmenn og listamenn koma fram.  Frekari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar verða  birtar á vefsíðu og facebook síðu okkar.